Gunna frænka, systir hans pabba, átti leið um Danmörku og kíkti aðeins við í kaffi hjá okkur. Eins og sönnum íslendingi sæmir kom hún færandi hendi, lambalærið liggur í frystinum og bíður eftir góðu tækifæri og svo kom hún líka með lesningu. Hún hefur verið að fara í gegnum dót ömmu og afa og ýmsir gullmolar komið úr kafinu m.a. stílabók sem pabbi átti þegar hann var strákur. Ég ákvað að skrifa einn stílinn hér inn þannig að allir sem vilja geti notið hans.
Á sjó
Þegar ég var á Flateyri, var það heitasta ósk mín að fara á sjó, og loksins fékk ég það. Það var einn dag, rétt fyrir páska að báturinn Einar Þveræingur rann upp að bryggju. Hann er 60 tonna bátur sem rær á línu. Helgi skipsstjórinn stóð á brúnni og veivaði mér og ég veivaði á móti. “Ég stökk upp í bátinn og spurði: Má ég koma með ykkur?” “Nei ekki núna vinur, það verður bölvuð bræla í nótt.” “Af hverju?” spurði ég. “Af því að þú getur orðið sjóveikur” sagði Helgi. “En ef ég spyr ömmu?” sagði ég og gaf ekkert eftir. “Ja, kannske, ef amma þín leyfir það.” Ég fór í hendingskasti upp eftir til ömmu og spurði hana hvor ég mætti fara með Helga á sjóinn. “Ertu búinn að spyrja Helga?” sagði hún. “Já, og hann ætlar að leyfa mér það, ef þú vilt,” sagði ég. “Já, ætli þú megir ekki fara”. Ég hentist út úr dyrunum, samt ekki án þess að þakka henni fyrir og beint niður í bát. “Ég má það” hrópaði ég um leið og ég stökk upp á bátinn. “jæja, búðu þig þá fljótt, við erum alveg að fara”. Ekki leið á löngu þangað til ég stóð við hliðina á Helga og við vorum á leið út fjörðinn. Þegar við vorum komnir út úr firðinum var farið að hvessa, og þar að auki var mig farið að kitla svolítið í magann. “Ertu nokkuð sjóveikur” sögðu allir við mig, þegar ég hitti þá úti á dekki. “Nei” sagði ég. “Þú ert hraustur, svona lættu allir strákar að vera”: Þegar leið á nóttina, fór sjógangurinn að verða heldur mikill, þá fór mig að verkja í magann. Ég fór niður í káetu, lagðist upp í koju, en ekki batnaði mér í maganum fyrir því. Þá fór ég að rápa um, ég fór upp í stýrishús, þar fékk ég að stýra svolítið. Ég fór niður í vélarrúm, þar stóð ég og hrofði á, hvernig vélarmaðurinn smurði vélina. Ég fór aftur uppí stýrishús og ætlaði út á dekk, en mér var bannað það, af því að báturinn valt mikið, og þar að auki var hann á ferð. “Komdu og stýrðu svolitla stund”, sagði Helgi, og fór inn í skipsstjórnarklefann. Ég tók við stýrinu. Þegar ég var búinn að stýra svolítinn tíma fór ég að verða þreyttur. Þegar Helgi kom fra aftur, sagði hann mér að koma með sér fram í lúkar, því að ég væri orðinn þreyttur. Ég lagðist upp í koju og sofnaði brátt. Þegar ég hafði sofið í svona 4 klukkutíma, vaknaði ég við að einhver kom niður. Það var stór strákur, sem hafði falið sig í bátnum, og ekki gefið sig fram fyrir en farið var að leggja. Ég heyrði, að Helgi skammaði hann mikið og sagði að fyrst hann væri hér, þá yrði hann að minnsta kosti að reyna að gera eitthvað til gagns, en hann var orðinn svo sjóveikur, að hann gat ekki neitt. Han lagðist upp í koju, og öðru hvor rak hann höfuðið út úr kojunni og spjó. Mesti verkurinn var nú hrofinn svo ég fór upp á dekk og horfði á, þegar fiskurinn var dreginn upp fyrir borðstokkinn. Þarna voru ýsur, þorskar og steinbítar, mér þótti gaman að taka goggana, og stinga skaftinu upp í kjaftinn á þeim, þá klemmdu þeir kjaftinn utan um skaftið, svo að tannaförinn sáust á sköftunum, síðan rotaði ég þá. Nú sá ég, að Nanni greip einn steinbítinn, sem var nýkominn upp úr sjónum, og hljóp með hann fram í lúkar. Ég fór á eftir honum niður. Nanni gekk að kojunni, þar sem laumufarþeginn lá og snéri sér upp að súð. Síðan lét hann gapandi steinbítinn bíta í rassinn á stráknum, sem rak upp ógurlegt öskur og rauk fram úr með steinbítinn hangandi í buxunum. Og nú segir ekki meira frá sjóferð þessari.